Sport

Njarðvík í undanúrslit - framlengt í Grindavík

Lærisveinar Vals Ingimundarsonar í Skallagrími eru komnir í framlengingu í Grindavík.
Lærisveinar Vals Ingimundarsonar í Skallagrími eru komnir í framlengingu í Grindavík.

Njarðvík varð í kvöld annað liðið til að tryggja sig í undanúrslit Iceland Express deildarinnar í körfubolta eftir 2 stiga sigur á ÍR í Seljaskóla, 76-78. Egill Jónasson skoraði sigurkörfu leiksins þegar ein sekúnda var eftir af leiknum sem var í járnum allan tímann en staðan í hálfleik var 39-40 fyrir Njarðvík. Njarðvík vann einnig fyrri viðureign liðanna og því einvígið 2-0.

ÍR var yfir 76-74 þegar 38 sekúndur voru eftir af leiknum en Jóhann Árni Ólafsson jafnaði metin með tveimur vítaskotum. ÍR fór síðan illa að ráði sínu í næstu sókn og Egill Jónasson náði að skora sigurkörfuna þegar ein sekúnda var eftir. Það mátti þó minnstu muna að Fannar Freyr Helgason næði að tryggja ÍR sigurinn með þriggja stiga flautukörfu en boltinn nánast skoppaði upp úr hringnum.

Leikur Skallagríms og Grindavíkur fer í framlengingu en lokatölur eftir venjulegan leiktíma í Grindavík urðu 65-65. Borgnesingar voru einu stigi yfir í hálfleik, 35-36. Skallagrímur vann fyrri leik liðanna á föstudagskvöld og geta því með sigri í kvöld komist í undanúrslit, ella knýr Grindavík fram oddaleik.

Keflavík varð í gær fyrst allra liða með því að leggja Fjölni að velli í tveimur leikjum og KR-ingar knúðu fram oddaleik gegn Snæfelli með eins stigs útisigri í Stykkishólmi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×