Innlent

Deildi hart á gagnrýnendur innan flokks

Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins.
Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins.
Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, fór hörðum orðum um þá flokksmenn sem hafa gagnrýnt forystuna opinberlega, þegar hann ávarpaði vorfund miðstjórnarflokksins sem haldinn er í Reykjavík.

Formaður Framsóknarflokksins deildi hart á þá flokksmenn sem gagnrýnt hafa forystu flokksins opinberlega að undanförnu og hvatti flokksmenn til samstöðu. Hann sagði að allir þingmenn flokksins og sveitarstjórnarmenn væru forystumenn flokksins og mátti lesa úr því að ádeila hans beindist ekki síst að borgarfulltrúanum Önnu Kristinsdóttur og þingmanninum Kristni H. Gunnarssyni sem hafa gagnrýnt forystuna harkalega að undanförnu. Formaðurinn sagðist ekki hræddur við komandi kosningar en lýsti vissum áhyggjum af því að innanflokksdeilur kynnu að hafa slæm áhrif á útkomu flokksins.

Halldór hvatti flokksmenn til að líta í eigin barm og skoða hvort þeir gætu ekki gert meira til að auka veg flokksins.

Halldór deildi ekki aðeins á þá samflokksmenn sína sem hafa gagnrýnt forystuna opinberlega. Hann fór einnig hörðum orðum um þá hugmynd Dags. B. Eggertssonar, oddvita Samfylkingarinnar í Reykjavík, að byggja aðeins tveggja akreina Sundabraut, þvert á það sem samkomulag hefði náðst um. Hann sagði slíka umræðu aðeins vera út og suður og engum til gagns.

Hann gagnrýndi einnig Samfylkinguna og Vinstri-græna fyrir að hafa bakkað út úr því sem hefði verið svo gott sem frágengið samkomulag um að ríkið keypti hlut borgarinnar í Landsvirkjun, þrátt fyrir að ríkið hefði verið reiðubúið að greiða hærra en matsverð fyrir hlut borgarinnar. Hefði borgin gengið að þessu hefði hún getað tekið þátt í hluta kostnaðar við Sundabraut sem væri umfram það ríkið væri reiðubúið að greiða, ef ráðist yrði í einhverja dýrari kosta við lagningu Sundabrautar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×