Viðskipti erlent

Heinz segir upp starfsfólki

Stjórn bandaríska matvælaframleiðandans Heinz, sem þekktastur er fyrir samnefndar tómatsósur, greindi frá því að fyrirtækið ætli að segja upp 2.700 starfsmönnum á næstu tveimur árum. Þetta jafngildir 8 prósentum af starfsliði fyrirtækisins en vonast er til að uppsagnirnar muni spara fyrirtækinu 355 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 25,7 milljarða íslenskra króna.

Tilkynningin kemur í kjölfar þess að hagnaður fyrirtækisins nam 167,9 milljónum dala á síðasta ársfjórðungi 2005, sem er 19 prósenta samdráttur á milli ára.

Heinz hefur verið undir miklum þrýstingi frá virkum hluthafa í fyrirtækinu að hækka arðgreiðslur til hluthafa. Hefur stjórn fyrirtækisins fram til þessa neitað að verða við tillögum hans um að grípa til aðgerða til að skera niður kostnað.

Sömuleiðis mun fyrirtækið skera niður hlunnindi og tilboð til smásöluverslana. Auk þessa er stjórn fyrirtækisins sagt íhuga að loka a.m.k. fimm verksmiðjum sínum á sama tímabili með það fyrir augum að hagræða enn frekar í rekstri.

Gengi bréfa í Heinz hækkaði um 3,1 prósent á mörkuðum í New York í dag í kjölfar tilkynningarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×