Viðskipti erlent

NYSE og Euronext sameinast

Euronext.
Euronext. MYND/AP

Stjórn kauphallarinnar í New York (NYSE) í Bandaríkjunum hefur ákveðið að kaupa samevrópska hlutabréfamarkaðinn Euronext og munu markaðirnir renna saman í einn. Með kaupunum verður til fyrsta kauphöllin sem hefur starfsemi beggja vegna Atlantshafsins. Höfuðstöðvar kauphallarinnar í Bandaríkjunum verður í New York en evrópskar höfuðstöðvar verða í París og Amsterdam.

Markaðsvirði sameinaðra kauphalla verður 20 milljarðar Bandaríkjadala, jafnvirði 1.448 milljarða íslenskra króna.

Stjórnir beggja kauphalla segja að um samruna „jafningja" sé að ræða.

Kauphöllin í New York atti kappi við þýsku kauphöllina, Deutsche Börse, um kaup á Euronext. Bitbeinið stóð hins vegar um höfuðstöðvar markaðarins en stjórn Deutsche Börse krafðist þess að ef yrði af kaupum í Euronext yrðu höfuðstöðvarnar færðar til Frankfurt.

Meirihluti hluthafa í Euronext ákvað að ganga til samninga við NYSE, sem bauð hluthöfum samevrópska markaðarins 10 milljarða dali, 724 milljarða íslenskar krónur, auk hluta í NYSE fyrir Euronext. Einn hlutur í NYSE mun jafngilda einum hlut í sameinaðri kauphöll, sem mun eftirleiðis heita NYSE Euronext.

Fleiri kauphallir hafa hug á sameiningu til að efla samkeppnisstöðu sína, sér í lagi eftir að rafrænum viðskiptum tók að fjölga. Stjórn Euronext reyndi sjálf að kaupa kauphöllina í Lúndúnum (LSE) í Bretlandi en dró í land þegar bandaríski verðbréfamarkaðurinn Nasdaq hóf að auka við hlut sinn í LSE. Nasdaq á nú fjórðungshlut í LSE og er stærsti einstaki hluthafinn.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×