Innlent

Guðni sáttur

Guðni Ágústsson, varaformaður Framsóknarflokksins, segist ekki hafa sóst eftir öðru ráðuneyti en Landbúnaðarráðuneytinu. Hann lítur ekki svo á að verið sé að stilla Valgerði Sverrisdóttur upp sem formannsefni á móti sér.

Á miðstjórnarfundi Framsóknarmanna í gærkvöld var mikil eindrægni og sættir - það er að segja á meðan fjölmiðlar sáu til. Þegar fundinum var lokað fyrir fjölmiðlamönnum kvað við nokkuð annan tón samkvæmt heimildum NFS. Það hvein í tálknum og sátu menn ekki á skoðunum sínum. Aðalvandinn sagður opinber ágreiningur innan framsóknar sem ætti að leysa innan hóps - auk þess sem sárlega var kvartað yfir leka úr þingflokknum í fjölmiðla, en framsóknarmönnum hefur þótt fjölmiðlamenn sækja harðar að sér en samstarfsflokknum. Það er allt opið í verðandi formannskjöri en Guðni er sáttur við sinn hlut - bað ekki um annað en áframhaldandi setu í Landbúnðaráðuneytinu.

Í samtali við NFS vildi Guðni ekki líta svo á að seta Valgerðar Sverrisdóttur í utanríkisráðherrastól væri vísbending um að hún ætti að verða næsti formaður flokksins, en í tveggja flokka stjórn er hefð fyrir því að formaður þess flokks sem ekki hefur forsætisráðuneytið sitji í stóli utanríkisráðherra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×