Viðskipti erlent

Allt í háaloft hjá Airbus

Airbus A380 flugvél.
Airbus A380 flugvél. Mynd/AFP

Stjórn EADS, móðurfélags flugvélaframleiðandans Airbus, ætlar að hittast til fundar og fjalla um stöðu mála. Tvisvar hefur verið tilkynnt um tafir á framleiðslu Airbus A380 risaþota frá fyrirtækinu nú síðast í liðinni viku. Ekki er búist við að flugvélarnar komi á markað fyrr en eftir hálft ár. Margir væntanlegir kaupendur hafa vegna þessa snúið sér annað og hafa sum þeirra krafið EADS um skaðabætur. Gengi hlutabréfa í EADS hefur fallið um heil 26 prósent vegna þessa.

Búist er við að tafirnar verði til þess að tekjur EADS dragist saman um 500 milljón evur, jafnvirði rúmra 47 milljarða íslenskra króna, á árunum 2007 til 2010.

Þá hefur aðstoðarforstjóri fyrirtækisins, Noel Forgeard, verið sakaður um innherjasvik en hann og þrjú barna hans seldu hluti sína í fyrirtækinu í mars. Skömmu síðar var tilkynnt um tafir á framleiðslu á þotum fyrirtækisins og lækkaði gengi bréfanna upp úr því. Forgeard hefur lýst yfir sakleysi vegna ásakana um innherjasvik.

Breska blaðið Financial Times segir að framtíð Forgeards verði á meðal þess sem stjórnin ætli að ræða á fundi sínum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×