Viðskipti erlent

Arcelor styður tilboð Mittal Steel

Stálkóngurinn Lakshmi Mittal, og Joseph Kinsch, stjórnarformaður Arcelor, á sameiginlegum blaðamannafundi í höfuðstöðvum Arcelor í Lúxemborg á mánudag.
Stálkóngurinn Lakshmi Mittal, og Joseph Kinsch, stjórnarformaður Arcelor, á sameiginlegum blaðamannafundi í höfuðstöðvum Arcelor í Lúxemborg á mánudag. Mynd/AFP

Stjórnvöld í Lúxemborg, sem eiga 5,6 prósent í evrópska stálrisanum Arcelor, og eignarhaldsfélagið Carla Tassara International, sem á 7,8 prósenta hlut í stálfyrirtækinu, eru fylgjandi endurskoðuðu yfirtökutilboði Mittal Steel í fyrirtækið. Mittal Steel gerði yfirtökutilboð í Arcelor í janúarlok á þessu ári en andstaða hluthafa í Arcelor varð til þess að gengið var til samninga við rússneska stálrisann Severstal um sameiningu fyrirtækjanna.

Viðsnúningur hluthafanna setur sameiningartilraunir Arcelor og rússneska stálrisans Severstal í uppnám en fyrir nokkru var lýst yfir vilja til að sameina félögin og búa til einn stærsta stálframleiðanda í heimi. Samrunaferlið er bindandi og ekki hægt að koma í veg fyrir samruna nema þeir hluthafar í Arcelor sem eiga helming hlutafjár í fyrirtækinu lýsi yfir andstöðu við það. Sömuleiðis fellur samrunaferlið um sjálft sig ákveði stóru hluthafarnir að selja Mittal Steel bréf sín í Arcelor.

Stjórn Severstal hefur lýst yfir að fari svo að ekkert verði af sameiningu fyrirtækjanna þá geti málið farið fyrir dómsstóla.

Fyrsta yfirtökutilboð Mittal Steel, sem er að stærstum hluta í eigu fjölskyldu hins indverskættaða Lakshmi Mittal, eins ríkasta manns sem búsettur er í Bretlandi, í janúarlok hljóðaði upp á 23,3 milljarða evrur eða 2,230 milljarða krónur. Fyrirtækið hefur tvívegis hækkað yfirtökutilboð sitt og hljóðar nýjasta tilboðið upp á 27 milljarða evrur, jafnvirði tæpra 2.600 milljarða íslenskra króna. Ef af kaupum verður munu fyrirtæki renna saman og heita eftirleiðis Arcelor Mittal.

Hluthafar Arcelor koma saman til fundar á föstudag næstkomandi og kjósa um það hvort taka eigi tilboði Mittal Steel eða halda samruna áfram við Severstal.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×