Erlent

Hátt í sjötíu týndu lífi

Ástandið var skelfilegt á markaðstorginu í Sadr-borg.
Ástandið var skelfilegt á markaðstorginu í Sadr-borg. MYND/AP

Að minnsta kosti 60 biðu bana þegar bílsprengja sprakk á markaði í Bagdad, höfuðborg Íraks, í morgun. Þá var þingkonu úr hópi súnnía rænt af óþekktum byssumönnum.

Árásin var gerð í Sadr-borg sem er fátækrahverfi sjía í austurhluta Bagdad. Svo virðist sem ódæðismaðurinn hafi kveikt á sprengjunni í þann mund sem bílalest lögreglumanna ók hjá markaðstorginu. Þar var mikill mannfjöldi enda föstudagshelginni nýlokið og því var manntjónið eins mikið og raun bar vitni. Ekki færri en 66 biðu bana og 80 til viðbótar slösuðust í sprengingunni. Ekki er vitað hverjir standa á bak við tilræðið en það er framið degi eftir yfirlýsingu Osama bin Laden, leiðtoga al-Kaída hryðjuverkanetsins, þar sem hann lofar Abu heitinn al-Zarqawi en hann féll í upphafi júnímánaðar. Í kjölfarið boðaði Nuri al-Maliki, forsætisráðherra, harðar aðgerðir gegn uppreisnarmönnum. Í gær greindi hins vegar talsmaður Bandaríkjahers frá því að árásum hefði fjölgað frá drápinu á al-Zarqawi þannig að aðgerðir stjórnvalda virðast ekki skila árangri. Margar vikur er síðan jafn mannskætt hryðjuverk hefur verið framið í landinu. Í morgun var svo einni af þingkonum stærsta stjórnmálaflokks súnnía rænt fyrir utan heimili sitt af óþekktum byssumönnum. Mannræningjarnir gerðu sér lítið fyrir og rændu einnig sjö lífvörðum hennar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×