Lífið

„Heita sætið“ á Q Bar í kvöld

Kristjana Stefánsdóttir á sjálfsagt ekki eftir að valda tónleikagestum vonbrigðum á Q bar í kvöld
Kristjana Stefánsdóttir á sjálfsagt ekki eftir að valda tónleikagestum vonbrigðum á Q bar í kvöld

Í kvöld heldur tónleikaröðin á Q bar við Ingólfsstræti áfram. Þá sest Kristjana Stefánsdóttir djassari í „Heita sætið" og syngur mörg sinna uppáhalds laga við undirleik þeirra Agnars Más Magnússonar píanóleikara og Gunnars Hrafnssonar bassaleikara. Síðustu tónleikar, með söngdívunum Margréti Sigurðardóttur og Andreu Gylfadóttur, fóru fram fyrir troðfullu húsi og mikil stemning ríkti. Sannkölluð djassgeggjun.

Kristjana er ein af okkar hæfileikaríkustu og fjölhæfustu söngkonum. Hún nam djasssöng frá Konunglega listháskólanum í Haag í Hollandi en einnig dvaldi hún í Kaupmannahöfn og lagði stund á nám í söngtækni hjá Chatrine Sadolin.

Kristjana hefur haldið tónleika víða um heim og hefur alloft komið fram í útvarpi, sjónvarpi og á tónleikum. Hún hefur sungið með fjölmörgum listamönnum en einnig gefið út eigið efni. Kristjana var m.a. tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir fyrstu sólóplötu sína „Kristjönu".

Að sögn Einars Geirs rekstrarstjóra mætti vera meira af lifandi tónlist á virkum dögum í Reykjavík. Það er af nægu að taka og margir afbragðs listamenn sem eru tilbúnir til að taka þátt í því „að skreyta miðbæjarsumrin með líflegum tónum og rafmagnaðri sveiflu sem fær fólk til að dilla sér og gleyma um stund hversdagsleikanum".

Ferill Kristjönu er glæsilegur og það er óhætt að lofa brennandi heitu andrúmslofti og „heitu sæti" á suðupunkti á Q bar, rétt eins og í fyrri skiptin.

Tónleikarnir hefjast kl. 21 og aðgangur er ókeypis.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×