Innlent

Vilja að Bandaríkjamenn borgi fyrir rannsóknir og hreinsun

Landvernd og systurfélög hennar annars staðar á Norðurlöndum vilja að Bandaríkjamenn borgi fyrir rannsóknir og hreinsun þeirra svæða sem varnarliðið hefur mengað undanfarna áratugi. Þau segja brýnt að bregðast skjótt við enda stutt í að herinn fari.

Landvernd fundaði á dögunum með sex öðrum norrænum náttúruverndarsamtökum þar sem meðal annars var rætt um brottför varnarliðsins. Samtökin benda á að víða í heiminum hafi hlotist umtalsverð mengun þar sem herstöðvar hafi verið starfræktar en ekki er hve mikil mengunin er hér á landi.

Bergur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landverndar, segir þó að vitað sé um menguð svæði. Það hafi reynst umfangsmikil grunnvatnsmengun á Suðurnesjum á níunda áratugnum og í kjölfar þess hafi þurft að loka vatnsbólum í Njarðvík. Mengunin sé því til staðar en spurningin sé hvar hún sé og fjölmörg svæði hafi ekki verið skoðuð með tilliti til þess.

Aðspurður um hvers konar mengun sé að ræða nefnir Bergur þrávirk efni eins og PCB sem safnist upp í lífríkinu. Þá bendir hann einnig á hugsanlega blýmengun og leysiefnamengun líkt og fundist hafi í grunnvatninu á Suðurnesjum.

Þá telja Landvernd og systursamtök þess að eðlilegt sé að Bandaríkjamenn borgi kostnaðinn af bæði rannsóknum og hreinsun svæðisins. Bergur segir að í umhverfisrétti nú til dags sé mengunarbótareglan í hávegum höfð en hún gangi út á að sá sem mengi borgi.

Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra sagði í samtali í við fréttastofu að ábending Landverndar væri þörf. Hún benti á að varnarviðræður milli Íslands og Bandaríkjanna stæðu nú yfir og þetta væri eitt af þeim málum sem undir væru. Það þyrfti því að bíða niðurstaðna í viðræðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×