Betur fór en á horfðist þegar á bilinu 100 til 150 lítrar af olíu láku úr vinnuvél sem var á ferðinni á Suðurlandsvegi við Hólmsá laust fyrir hádegi í dag. Olíuleiðsla í vélinni gaf sig en ekki liggur fyrir hvers vegna. Slökkvilið var sent á vettvang og naut það aðstoðar frá Vegagerðinni við að moka upp jarðveginum þar sem olían lak. Talið er að um þrjú tonn af jarðvegi hafi verið fjarlægð af staðnum en með því var komið í veg fyrir að olían læki í Hólmsá og þaðan í Elliðavatn, en vatnsverndarsvæði Reykjavíkurborgar er í nágrenninu.
Innlent