Innlent

Ótækt að Landsvirkjun starfi í skjóli ríkisábyrgðar

Einar Oddur Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður iðnaðarnefndar Alþingis
Einar Oddur Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður iðnaðarnefndar Alþingis MYND/GVA

Varaformaður iðnaðarnefndar Alþingis telur ótækt að Landsvirkjun starfi í skjóli ríkisábyrgðar og vill að einkafyrirtækjum verði gert kleift að hanna og byggja virkjanir.

Einar Oddur Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður iðnaðarnefndar, var gestur á fréttavaktinni á NFS í gær. Þar sagði hann ekki nauðsynlegt að selja Landsvirkjun. Hún gæti áfram staðið við þær skuldbindingar sem hún hefði þegar stofnað til, en síðan ætti að opna fyrir að einkafyrirtæki geti komið að byggingu og rekstri virkjana.

Einar sagði eina vandamálið sem hann sæi í tengslum við Landsvirkjun séu ríkisábyrgðarnar, því þær skekki fjárfestingar í landinu. Það þýði ekki endilega að nauðsynlegt sé að selja Landsvirkjun heldur sé hægt að „taka hana úr sambandi" næstu áratugina og láta hana borga sínar skuldir.

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, segir ákaflega erfitt að hafa virka samkeppni á jafn litlum raforkumarkaði og íslenski raforkumarkaðurinn sé. Samkeppnisregluverkið hér á landi, sem tekið sé frá ESB, sé búið til til að skapa samkeppni á 450 milljón manna markaði. Því sé hætt við því að upp kæmi tvíokun ef reynt yrði að koma á virkri samkeppni á þessum markaði á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×