Samfylkingin í Suðvesturkjördæmi ákvað rétt í þessu á aðalfundi kjördæmisráðs að halda lokað prófkjör fyrir flokksmenn til að velja á lista flokksins fyrir Alþingiskosningarnar í vor. Rannveig Guðmundsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, mun ekki gefa kost á sér til endurkjörs.
Rannveig tilkynnti um ákvörðun sína á fundinum. Hún mun þó sitja út kjörtímabilið en ætlar að segja skilið við stjórnmálin í vor.
Rannveig hefur verið í stjórnmálum í 28 ár eða frá árinu 1978 þegar hún tók sæti í bæjarstjórn Kópavogs. Hún hefur víða komið við á ferli sínum, hún var félagsmálaráðherra 1994-1995 og hefur verið 1. varaforseti Alþingis síðan á síðasta ári. Þá hefur hún verið formaður þingflokks Alþýðuflokksins 1993-1994 og 1995-1996, formaður þingflokks jafnaðarmanna 1996-1999 og formaður þingflokks Samfylkingarinnar 1999-2001. Rannveig segir að starf sitt sen þingflokksformaður þriggja jafnaðarnannaflokka og starf hennar í Norðurlandaráði hvað eftirminnilegast á ferlinum, en hún hefur verið formaður Norðurlandaráðs síðan árið 2004.
Hún segir óráðið hvaða verkefni taki við hjá sér á þessarri stundu.
Nú er ljóst að Þórunn Sveinbjarnardóttir, 4. þingmaður Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, mun sækjast eftir sæti Rannveigar í komandi alþingiskosningum. Búast má við að fleiri muni lýsa yfir framboði hjá Samfylkingunni í Suðvesturkjördæmi á næstu dögum.