Innlent

Sigurður Kári sækist eftir 2. sæti í öðru hvoru kjördæmanna

Sigurður Kári Kristjánsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins sækist eftir 2. sæti framboðslista flokksins í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna. Hann hefur því ákveðið að gefa kost á sér í 4. sætið í komandi prófkjöri flokksins.

Stjórn fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík lagði til að haldið yrði prófkjör vegna uppröðunar á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur fyrir alþingiskosningar næsta vor. Í tilkynningu segir Sigurður Kári að í komandi prófkjöri muni hann sækjast eftir því að honum verði falið frekara hlutverk og aukin ábyrgð fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins og kjósenda í Reykjavík.

"Því býð ég mig fram í 4. sæti í komandi prófkjöri," segir Sigurðu Kári Kristjánsson í tilkynningunni.

Að undangengnu prófkjöri haustið 2002 var Sigurður Kári kjörinn þingmaður Reykvíkinga í Alþingiskosningunum vorið 2003. Á Alþingi gegnir hann formennsku í menntamálanefnd Alþingis, en á jafnframt sæti í allsherjarnefnd og iðnaðarnefnd þingsins og er varamaður í utanríkismálanefnd. Þá hefur Sigurður Kári átt sæti í Norðurlandaráði og gegnir formennsku Íslandsdeildar Þingmannaráðstefnu um Norðurskautsmál.

"Ég hef um langt skeið starfað á vettvangi Sjálfstæðisflokksins. Ásamt því að vera þingmaður flokksins hef ég átt sæti í miðstjórn og framkvæmdastjórn hans, gengt embætti formanns Sambands ungra sjálfstæðismanna, átt sæti í stjórn Heimdallar og gegnt fleiri trúnaðarstöðum fyrir flokkinn. Í störfum mínum á Alþingi hef ég lagt fram fjölda lagafrumvarpa og hef jafnframt verið virkur þátttakandi í þjóðmála- og stjórnmálaumræðu á Íslandi. Hef ég í störfum mínum lagt ríka áherslu á að gæta hagsmuna skattgreiðenda, en auk þess látið mig efnahagsmál, menntamál, utanríkismál og öryggis- og einkamál almennra borgara á Íslandi miklu varða," segir Sigurður Kári í tilkynningunni.

Sigurður Kári Kristjánsson er 33 ára gamall Reykvíkingur. Hann er lögfræðingur að mennt og lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1998 og hlaut málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi árið 1999. Áður en hann var kjörinn Alþingismaður starfaði hann sem lögmaður á lögmannsstofunni Lex í Reykjavík. Sigurður Kári er í sambúð með Birnu Bragadóttur, flugfreyju og háskólanema.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×