Talið er að Margrét Frímannsdóttir formaður þingflokks Samfylkingarinnar tilkynni á kjördæmaráðsfundi Samfylkingarinnar í dag að hún hætti í pólitík.
Jóhann Ársælsson þingmaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi tilkynnti í gær að hann gæfi ekki kost á sér í prófkjöri fyrir komandi kosningar. Rannveig Guðmundsdóttir þingmaður hefur þegar tilkynnt að hún láti öðrum eftir sæti sitt í Suðvesturkjördæmi.
Í kjördæmi Margrétar fara væntanlega þrír fram í fyrsta sætið kjósi hún að hætta. Lúðvík Bergvinsson sem var í öðru sæti síðast, Björgvin Sigurðsson og Jón Gunnarsson.
Landsþing Ungra Jafnaðarmanna sendi í morgun tilkynningu þar sem Margrét er hvött til að bjóða sig áfram fram sem oddviti lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Í tilkynningunni segir að vinnusemi Margrétar og baráttuþrek hafi verið öðrum fordæmi og aflað henni mikils persónufylgis sem mikilvægt er að nýtist Samfylkingunni í næstu kosningum.
Kjördæmaráðsfundurinn hefst klukkan hálf tvö í dag.