Innlent

Meginlínur samkomulags liggja fyrir

Forsætisráðherra vonast til að hægt verði að kynna samkomulag Íslendinga og Bandaríkjamanna í varnarviðræðum fyrir helgi og í síðasta lagi eftir helgi. Meginlínur liggja þegar fyrir.

Þetta kom fram í máli Geirs H. Haarde forsætisráðherra eftir ríkisstjórnarfund í morgun. Geir segir að verið sé að vinna að málinu bæði hér á landi og í Washington og eins og hann hafi áður sagt geri hann sér vonir um að hægt verði að skýra frá hlutunum í lok vikunnar eða í síðasta lagi eftir helgi enda styttist í mánaðamótin.

Aðspurður hvort það þýði ekki að kominn sé rammi að niðurstöðu segir Geir að ákveðin lína væri komin í málið en ekki sé hægt að ljúka því fyrr en allt sé klárt.

Aðspurður hvers vegna ekki sé hægt að skýra frá einhverjum hluta málsins segir Geir að íslensk stjórnvöld séu í milliríkjaviðræðum og taka þurfi tillit til mótaðilans. Hann hafi rætt málið við stjórnarandstöðuna og hann muni, þegar málin verða komin á hreint, óska eftir fundi með formönnum stjórnarandstöðuflokkanna á nýjan leik. Hann muni einnig óska eftir fundi í utanríkismálanefnd til að fara yfir málið og svo verði það kynnt opinberlega.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×