Innlent

Segist ekki bjóða sig fram gegn Birni

Guðlaugur Þór Þórðarson, sem sækist eftir öðru sæti á lista Sjálfstæðismanna í Reykjavík, eins og Björn Bjarnason dómsmálaráðherra gerir, segist ekki vera að bjóða sig fram gegn Birni.

Guðlaugur bendir á að Björn hafi ekki skipað annað sæti fyrir síðustu kosningar og því verði nýr maður kosinn í annað sæti listans. Það liggi fyrir að það sé alveg sama í hvaða sæti hann hefði boðið sig fram, hann væri alltaf að etja kappi við einhvern af félögum sínum og samstarfsmönnum. Hann bjóði sig ekki fram gegn einum eða neinum heldur bjóði hann fram krafta sína eins og áður til að vinna fyrir sjálfstæðisfólk í Reykjavík og Reykvíkinga alla.

Aðspurður hvort hann telji ekki bratt, miðað við feril Björns Bjarnasonar í Sjálfstæðisflokknum, að bjóða sig fram í sama sæti segir Guðlaugur Þór að það liggi fyrir að sá sem verði í öðru sæti í prófkjörinu muni leiða annan framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, annaðhvort í Reykjavíkurkjördæmi norður eða suður.

Björn Bjarnason sagði á heimasíðu sinni í fyrradag að það væri ekki vænlegt fyrir frið í flokknum að menn væru að bjóða sig fram hver gegn öðrum. Hann segist þó hvergi banginn og hafi ekki ástæðu til að óttast neitt. Aðspurður hvort hann túlki það svo að framboð Guðlaugs Þórs sé beint gegn honum segir Björn að hann hafi aldrei litið á framboð manna í prófkjörum gegn einhverjum. Hann telji að menn séu að vinna að sameiginlegum markmiðum og leggi áherslu á samstöðu. Vonandi geri Guðlaugur Þór það líka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×