Innlent

Nýr fastafulltrúi Íslands hjá Evrópuráðinu

Stefán Lárus Stefánsson hefur afhent Terry Davis, aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins í Strassborg, trúnaðarbréf sitt sem fastafulltrúi Íslands hjá Evrópuráðinu með aðsetur í Strassborg.

Fram kemur í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu að Ísland hafi verið aðili að Evrópuráðinu í 56 ár en ráðinu er ætlað að efla samvinnu meðal aðildarríkjanna með því að standa vörð um mannréttindi, styrkja lýðræðislega stjórnarhætti og sameiginlega arfleifð réttarríkis auk þess að efla mannleg gildi og almenn lífsgæði meðal Evrópubúa.

Evrópuráðið er elsta starfandi stjórnmálastofnun álfunnar en það var stofnað 1949. Aðildaríki þess telja nú 46, þar af 21 frá Mið- og Austur Evrópu. Aðildarumsóknir tveggja annarra ríkja eru nú til meðferðar hjá ráðinu en þess má geta að 5 ríki til viðbótar hafa þar áheyrnarstöðu Páfagarður, Bandaríkin, Kanada, Japan og Mexíkó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×