Innlent

Ekki ólíklegt að Katrín Jakobsdóttir fari fram

Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstri grænna
Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstri grænna MYND/GVA

Varaformaður Vinstri grænna segir ekki ólíklegt að hún fari fram í prófkjöri flokksins í Reykjavík fyrir þinkosningarnar næsta vor. Bæði Ögmundur Jónasson og Kolbrún Halldórsdóttir ætla að bjóða sig fram.

Vinstri grænir í Reykjavík halda í kvöld fund þar sem afgreidd verður tillaga um fyrirkomulag á forvali fyrir komandi alþingiskosningar. Tillagan gerir ráð fyrir sameiginlegu forvali í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur og Suðvesturkjördæmi þann 11. nóvember næstkomandi. Að sögn Drífu Snædal, framkvæmdastýru vinstri grænna, hefur tillagan verið kynnt á félagsfundum í sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu, en í kvöld taka félagsmenn í Reykjavík endanlega afstöðu til hennar. Ekki liggur fyrir hvenær vinstri grænir í Suðvesturkjördæmi gera slíkt hið sama.

Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstri grænna, sagði í samtali við NFS síðdegis í dag að ekki sé ólíklegt að hún fari fram í prófkjöri flokksins í Reykjavík. Hún hyggst þó bíða með allar opinberar yfirlýsingar þar til það liggur fyrir hvort sameiginlegt forval fari fram í Reykjvavíkurkjördæmunum tveimur. Katrín segir að ef hún bjóði sig fram muni hún sækjast eftir einu af efstu sætunum.

Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sem skipaði 1. sætið á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir síðustu kosningar, sagðist í samtali við fréttastofuna í dag að hún hyggist bjóða sig fram í forvalinu. Sömu sögu er að segja af Ögmundi Jónassyni, þingflokksformanni VG, en hann skipaði 1. sæti flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður í kosningunum fyrir rúmum þremur árum.

Atli Gíslason, varaþingmaður Vinstri grænna, hefur verið orðaður við framboð en hann vildi ekki staðfesta það í samtali við NFS í dag. Hann telur það þó líklegt, en óvíst þá í hvaða kjördæmi.

Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, segist ekki vera á leiðinni í framboð. Þá hafa verið vangaveltur um hvort Árni Þór Sigurðsson borgarfulltrúi hyggist freista þess að komast inn á þing en ekki náðist í Árna í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×