Innlent

Rangfærslur og misskilningur um undirbúning Kárahnjúkavirkjunar

Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í ræðustól á Alþingi í kvöld.
Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í ræðustól á Alþingi í kvöld. MYND/NFS

Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segir hafa orðið vart við ótrúlegar rangfærslur og misskilning í umræðunni um undirbúning Kárahnjúkavirkjunar. Þetta kom fram í ræðu hans á Alþingi í kvöld. Hann sagði andstæðinga framkvæmdanna hafa sáð fræjum ótta og kvíða með málflutningi sínum. Ráðherra sagði unnið að samfelldri heildaráætlun um nýtingu og vernd auðlinda. Megin stefnan væri að ráðdeild og aðgát, varúð og virðing ráði ferð við nýtingu þeirra.

Í ræðu sinni sagði iðnaðar- og viðskiptaráðherra, að samstarfsflokkar í ríkisstjórn hefðu staðið fyrir róttækum umbótum og nýsköpun í samfélaginu og það skilað miklu. Störfum hafi fjölgað í útrás fyrirtækja, hátækni og nýsköpun. Nýjar aðgerðir stjórnvalda til að hægja á og auka stöðugleika og efnahagslegt jafnvægi séu byrjaðar að skila árangri.

Nýr formaður Framsóknarflokksins vildi einnig þakka fyrrirennara sínum, Halldóri Ásgrímssyni, fyrrverandi forsætisráðherra, sem hefði átt hluti í öllum árangri í stjórnarsamstarfinu.

Jón sagði unnið að marktækum áfanga í verðlagi á matvörum. Þar gegni bændur lands og afurðastöðvar mikilvægu hlutverki. Miðað verði að sameiginlegum hag allrar þjóðarinnar.

Hann sagði samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa verið gott, málefnalegt og farsælt, það hefði miklu skilað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×