Innlent

Fær frjálsan aðgang að gögnum

Nefnd sem forsætisráðherra skipaði í vor til að setja reglur um aðgang að opinberum gögnum um öryggismál, fær frjálsan aðgang að öllum gögnum í vörslu stjórnvalda sem snerta öryggismál landsins á árunum 1945 til 1991, samkvæmt frumvarpi sem kynnt var á Alþingi í kvöld.

Sólveig Pétursdóttir forseti alþingis flytur frumvarpið. Nefndin á að koma með tillögur um hvernig fræðimenn geti í framtíðinni nálgast gögn um öryggismál á tímum Kalda stríðsins. Opinberir starfsmenn bæði núverandi og fyrrverandi sem hafa undirgengist þagnarskyldu eiga, samkvæmt frumvarpinu að svara öllum spurningum nefndarmanna um verklag við öflun, skráningu og varðveislu upplýsinga á umræddu tímabili.

Nefndarmenn verða bundir þagnarskyldu um viðkvæmar upplýsingar um einkalíf sem þeir komast að í starfi sínu fyrir nefndina og þá varnar og öryggishagsmuni landsins sem enn er í fullu gildi. Nefndin heyrir ekki undir upplýsingalög en samkvæmt frumvarpinu á hún að gera forsætisnefnd alþingis og formönnum þingflokka grein fyrir framvindu verksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×