Innlent

600 hjón með 60% fjármagnstekjna

600 hjón eru með 60% allra fjármagnstekna á Íslandi. Þetta kom fram í máli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, í utandagskrárumræðu um aukinn ójöfnuð í íslensku samfélagi á Alþingi í dag. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, segist ekki missa svefn þótt einhverjir hafi hagnast á viðskiptum, aðalatriðið sé að kaupmáttur landsmanna allra hafi aukist gríðarlega undanfarin ár.

Ingibjörg sagði ríkisstjórnina hafa verið í linnulausum hernaði gegn jöfnuði í samfélaginu og því yrði ekki á móti mælt að ójöfnuður hefði aukist, það staðfestu mælingar með Gini stuðlinum.

Forsætisráðherra sagði það hins vegar rangt að mikil gliðnun hefði orðið í tekjudreifingu landsmanna, ef þeim 5% sem hæstar hefðu tekjurnar væri sleppt, væri kaupmáttaraukning nokkuð jöfn.

Geir nefndi að hluti þessa hóps hefði að vísu kosið að greiða sína skatta og gjöld erlendis og það væri kappsmál að snúa þeirri þróun við. Það væri furðulegt hversu stjórnarandstaðan agnúaðist út í fjármagnstekjuskattinn, hvort hún vildi fremur að hann hefði ekki verið settur á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×