Lögreglan stöðvaði 40 ökumenn í gær þar sem þeir óku án bílbelta. Þeir eiga allir von á sekt fyrir athæfið. Einnig voru 25 árekstrar í borginni en í fimm þeirra varð slys á fólki.
Mest var um aftanákeyrslur en á Höfðabakka varð fjögurra bíla árekstur þar sem 17 ára drengur í ökuprófi var í fremsta bíl ásamt prófdómaranum. Hann fipaðist við aksturinn og snarhemlaði með þeim afleiðingum að bílarnir skullu saman.
Myndavélabíll lögreglunar hefur verið staðsettur við Vesturlandsveg á móts við Klébergsskóla þar sem hámarkshraði er 70 kílómetrar á klukkustund. Þar hafa margir verið á of mikilli ferð og meðalhraði þeirra sem myndaðir voru var 90 kílómetrar á klukkustund.
Lögreglan hefur verið víða við hraðamælingar í umdæminu og eiga fimmtíu ökumenn von á sekt. Hraðamælingunum verður haldið áfram af fullum krafti.