Innlent

Vinstri - grænir styðja ekki hvalveiðar

Þingflokkur Vinstri - grænna styður ekki að teknar verði upp hvalveiðar nú meðal annars vegna þess að hugsanlega sé að verið sé að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Þetta kom fram í máli Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstri - grænna, á þingi í dag þegar tilkynnt var að veiðar hæfust á ný.

Steingrímur gagnrýndi a boðað hafi verið til fundar meðal annars með utanríkismálanefnd vegna hvalveiðanna nánast eftir að skip væri farið á veiðar. Það mætti sannarlega kalla samráð eftir á. Dró hann í efa að Íslendingum væri heimilt samkvæmt Alþjóðahafréttarsáttmálanum og náttúruverndar- og viðskiptasamningum að hefja veiðar á stórhval í atvinnuskyni.

„Það er nokkuð ljóst að lítils háttar atvinnuveiðar munu ekki gefa af sér nema smáar fjárhæðir og þar af leiðandi allt eins líklegt að við séum að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Við verðum fyrir miklu meira tjóni á öðrum sviðum okkar atvinnulífs heldur en þessar takmörkuðu veiðar að minnsta kosti geta gefið af sér. Við í þingflokki Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs getum ekki mælt með því að ráðist verði nú í veiðar við þessar aðstæður og ekki stutt það á þessum tímapunkti," sagði Steingrímur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×