Innlent

Ríkisstjórnin sökuð um getuleysi í launajafnréttismálum

MYNDStefán

Hart var deilt á ríkisstjórnina á Alþingi í dag fyrir að geta ekki unnið gegn launamun kynjanna. Jóhanna Sigurðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, var málshefjandi og vakti athygli á því að Alþingi hefði fyrir tveimur og hálfu ári samþykkt að gerð yrði framkvæmdaáætlun um launajafnrétti kynjanna og spurði Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra hvenær slík áætlun myndi taka gildi.

Ráðherra sagði að þau úrræði sem beitt hefði verið hefðu ekki dugað og það staðfesti ný rannsókn sem kynnt yrði á næstunni. Sagði hann félagsmálaráðuneytið hafa óskað eftir samstarfi við Jafnréttisráð um framkvæmdaáætlunina í vetur en ekki lægi fyrir hvenær þeirri vinnu lyki.

Þingmenn úr röðum Vinstri - grænna og Samfylkingunn gagnrýndu í kjölfarið ríkisstjórnina fyrir stefnu- og getuleysi í málinu. Ráðherra tók undir með þingmönnum að staðan væri óþolandi en að hann hygðist leita eftir samvinnu við aðila vinnumarkaðarins um aðgerðir í málinu. Þá teldi hann koma til greina við endurskoðun jafnréttislaga, sem nú stendur yfir, að fara að fordæmi Svía og Íslendinga og leyfa trúnaðarmönnum að koma að launaupplýsingum fyrirtækja með það að markmiði að eyða launamun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×