Innlent

600 fleiri íbúðir byggðar í fyrra en árið 2000

Um 600 fleiri íbúðir voru byggðar í fyrra en árið 2000 samkvæmt svari félagsmálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar. Í upplýsingum sem fengnar eru úr Landskrá fasteigna kemur fram að um 1850 íbúðir voru byggðar á árinu 2000 en þær voru um 2420 árið 2005.

Tölurnar leiða einnig í ljós að bygging sérbýlisíbúða hefur minnkað á tímabilinu á höfuðborgarsvæðinu en hins vegar aukist utan þess.

Jóhanna spurði einnig um þróun á verði nýbygginga og eldra húsnæðis. Í svari ráðherra kemur fram að meðalfermetraverð í bæði sérbýli og fjölbýli hefur um það bil tvöfaldast í nýbyggingum á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu 2000 til 2005.

Meðalfermetraverð í eldra sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hefur hins vegar rúmlega tvöfaldast, úr 87 þúsund krónum á fermetra árið 2000 í 183 þúsund krónur í fyrra. Fermetraverð í eldra fjölbýli hefur hins vegar hækkað um tæp 90 prósent á tímabilinu.

Í svari félagsmálaráðherra kemur enn fremur fram að um 111 þúsund íbúðir voru á landinu í fyrra skv. Orkuspárnefnd og er búist við að þeim fjölgi um 11 þúsund fram til ársins 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×