Innlent

Framlengja framboðsfrest vegna forvals í NA-kjördæmi

MYND/Stefán

Framboðsfrestur í forvali Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Norðausturkjördæmi hefur verið framlengdur um fjóra daga, eða til 5. nóvember. Valgerður Jónsdóttir, formaður uppstillingarnefndar, segir 12 einstaklinga hafa gefið kost á sér. Kynjahlutföll eru jöfn í þessum 12 manna hópi og dreifingin um kjördæmið nokkuð góð, að sögn Valgerðar.

Kjördæmisráð flokksins ákvað fyrr í þessum mánuði að halda leiðbeinandi forval í kjördæminu vegna komandi þingkosninga og verður valið í sex efstu sæti listans með póstkosningu. Flokksmenn VG í Norðausturkjördæmi fá senda vallista upp úr mánaðamótum og velja sex nöfn sem þeir vilja sjá í 6 efstu sætunum. Forvalið er ekki bindandi heldur leiðbeinandi fyrir uppstillingarnefndina sem stillir upp á listann með hliðsjón af forvalinu.

Valseðlar verða sendir út eftir að framboðsfrestur rennur út en koma verður seðlunum til uppstillinganefndar fyrir 15. nóvember. Flokkurinn á nú tvo þingmenn í kjördæminu, þau Steingrím J. Sigfússon, formann flokksins, og Þuríði Backman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×