Innlent

Íslendingum í háskólanámi fjölgar hratt

MYND/Hari

Ísland er ásamt Svíþjóð í öðru sæti á Norðurlöndum þegar horft er til þess hversu margt ungt fólk er í háskólanámi. Þetta kemur fram í Norrænu tölfræðiárbókinni 2006 sem kemur út í dag.

Í tilkynningu frá norrænu ráðherranefndinni kemur fram að Ísland hafi á örfáum árum farið fram úr Danmörku og Noregi og náð Svíþjóð hvað varðar fjölda ungs fólks í háskólanámi. 10,5 prósent Íslendinga á aldrinum 20 til 40 ára var í háskólanámi árið 2000 en árið 2004 var hlutfallið orðið 15 prósent. Finnar eru fremstir Norðurlandaþjóða á þessu sviði því á bilinu 19 til 20 prósent Finna stunda háskólanám hverju sinni.

Tölurnar sýna einnig að miðað við önnur norræn ríki hafa tiltölulega margir Íslendingar valið að stunda nám innan félagsvísinda, hagvísinda og lögfræði. Þá kemur fram að nær helmingur þeirra Íslendinga sem stunda nám í útlöndum gerir það annars staðar á Norðurlöndum, flestir í Danmörku.

Íslensk námslán eru hærri en sú námsaðstoð sem veitt er annars staðar á Norðurlöndum en á hinn bóginn veita hin ríkin hluta námsaðstoðarinnar í formi styrkja sem ekki þarf að endurgreiða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×