Innlent

Uppsagnir fram undan hjá Akureyrarbæ

Uppsagnir eru fram undan hjá Akureyrarbæ vegna stjórnsýslubreytinga sem nú standa yfir. Formaður bæjarrráðs segir breytingarnar til bóta og vísar gagnrýni á bug.

Þær breytingar eru nú að verða á stjórnkerfi Akureyrarbæjar að störf sviðsstjóra bæjarins verða lögð niður og embætti bæjarritara verður endurvakið Jafnframt breytast nefndarstörf og verður til stórt embætti sem nær yfir ýmis svið sem áður voru aðskilin, Akureyrarstofa.

Kurr er meðal sumra starfmanna bæjarins enda verður ekki hægt að finna sambærileg störf handa öllum eftir breytingarnar. Aðspurður hvort einhverjum starfsmönnum verði sagt upp segir Hermann Jón Tómasson, formaður bæjarráðs Akureyrar, að svo verði. Einhverjir geti ekki fengið sambærilegt starf.

Spurður hvort í bígerð sé að gera starfslokasamninga við einhverja starfsmenn segir Hermann að það eigi eftir að koma í ljós. Hann segir að þegar litið sé á heildina verði breytingarnar til bóta en ekki hræðilegar og hættulegar eins og bæjarfulltrúi Vinstri - grænna hafi sagt. Þetta sé leið til að gera betur en gert hafi verið og þannig líti meirihlutinn á breytingarnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×