Innlent

Tölur kl. 20:30 - Pétur virðist saxa á Ástu

Pétur Blöndal virðist saxa á Ástu Möller í sjötta sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Þegar talin hafa verið 6.474 atkvæði vantar Pétur aðeins 27 atkvæði til að ná 6. sætinu af Ástu. Hún hefur hlotið samtals 5.165 atkvæði en Pétur er með samtals 4.885 atkvæði í 1. - 7. sæti.

Geir Haarde er með 6.200 atkvæði í 1. sæti, Guðlaugur Þór Þórðarson er með 5.260 atkvæði í 1. - 2. sæti og Björn Bjarnason er með 4.561 atkvæði í 1. - 3. sæti. Nú munar um 400 atkvæðum á Birni og Guðlaugi í 1. - 2. sæti. Guðfinna Bjarnadóttir er í fjórða sætinu og Illugi Gunnarsson í því fimmta. Röðin er þessi:

1 Geir H. Haarde 6.200

2 Guðlaugur Þór Þórðarson 5.260

3 Björn Bjarnason 4.561

4 Guðfinna S. Bjarnadóttir 5.222

5 Illugi Gunnarsson 5.259

6 Ásta Möller 5.165

7 Pétur H. Blöndal 4.885

8 Sigurður Kári Kristjánsson 4.988

9 Birgir Ármannsson 4.980

10 Sigríður Andersen 4.007

11 Dögg Pálsdóttir 3.803

12 Grazyna M. Okuniewska 2.215



 

Frambjóðendur þakklátir og ánægðir með sterkan lista

Björn játar sig þó ekki sigraðan en Guðlaugur Þór Þórðarsson er enn í öðru sæti þegar búið er að telja 3992 atkvæði. Allt bendir svo til þess að Sjálfstæðismenn eignist tvo nýja þingmenn, Guðfinnu Bjarnadóttur, sem er nú í fjórða sæti og Illuga Gunnarsson, sem er í fimmta sæti. Í sjötta sæti núna er Ásta Möller.

Björn Bjarnason sagði í viðtali við NFS um klukkan 19:30, að hann myndi ræða það þegar úrslitin lægju fyrir hvaða sæti hann myndi taka.

Guðlaugur Þór Þórðarsson segir stöðuna mjög ánægjulega, en hvort heldur sem er, annað eða þriðja sætið, yrði góð niðurstaða fyrir sig og fyrir flokkinn. Prófkjörið leggði grunninn að stórsigri Sjálfstæðisflokksins í kosningunum í vor.

Guðfinna Bjarnadóttir er ánægð og sæl og þakklát fyrir stuðninginn. "Nú þarf að finna nýjan rektor fyrir Háskólann í Reykjavík," segir Guðfinna.

"Ég er afskaplega þakklátur fyrir þann stuðning sem ég hef fengið í þessu prófkjöri. Það skiptir mig þó engu sérstöku máli hvort ég verð í 5. eða 6. sæti," sagði Illugi Gunnarsson í samtali við NFS þegar tölur höfðu verið birtar klukkan 19:30. Samkvæmt þeim er Illugi í 5. sæti með 4.477 atkvæði en framan af var Illugi í 6. sæti en Ásta Möller í því fimmta.

Illugi vildi þakka öllu því fólki sem hefði veitt honum stuðning í

prófkjörinu og öllum þeim sem hefðu unnið með sér undanfarnar vikur í

prófkjörsbaráttunni.

"Ég tel þann lista sem nú er að myndast sigurstranglegan fyrir

Sjálfstæðisflokkinn í Alþingiskosningunum í vor," sagði Illugi.

Ásta Möller segist afskaplega sátt með kosningu sína og Guðfinnu.

Geir Haarde, formaður flokksins sagði í samtali við NFS að það stefndi í spennandi kosningakvöld. Kosningin væri jöfn og spennandi, og hvernig sem niðurstaðan yrði væri ljóst að Sjálfstæðismenn væru að stilla upp afar öflugum lista fyrir kosningarnar í vor, fimm af 12 efstu á listanum væru konur og þarna blandaðist saman nýtt fólk og fólk með öfluga reynslu í pólitík.

Sigurður Kári Kristjánsson segir að hann hefði veiljað ná betri árangri en tíðindin felist í því ef Guðlaugur nái öðru sæti og Guðfinna því fjórða í sínu fyrsta prófkjöri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×