Innlent

Stjórnarandstaðan: Betur má ef duga skal

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Vill stærri skref
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Vill stærri skref MYND/GVA

Stjórnarandstöðuflokkarnir á Alþingi, Frjálslyndi flokkurinn, Samfylking og Vinstrihreyfingin grænt framboð fagna ákvörðun ríkisstjórnarinnar að lögleiða 25 þúsund króna frítekjumark á mánuði vegna atvinnutekna lífeyrisþega frá 1. janúar 2007. Áður hafði ríkisstjórnin kynnt áform um að slík breyting kæmi til framkvæmda í áföngum á árunum 2009 og 2010.

Í tilkynningu flokkanna segir að þetta skref nái þó hvergi nærri nógu langt og sé aðeins þriðjungur af því sem stjórnarandstöðuflokkarnir hafa lagt til á Alþingi.

Samkvæmt þingsályktunartillögu sem Frjálslyndi flokkurinn, Samfylkingin og Vinstrihreyfingin grænt framboð stóðu sameiginlega að í upphafi þings er lagt til að frítekjumark vegna atvinnutekna lífeyrisþega verði 75 þúsund krónur á mánuði eða 900 þúsund krónur á ári og komi strax til framkvæmda.

Stjórnarandstöðuflokkarnir krefjast þess að ríkisstjórnin stígi nú þegar stærri skref til þess að bæta kjör lífeyrisþega í samræmi við þessar tillögur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×