Viðskipti innlent

Félagsþjónusta auðmanna

Það var glatt á hjalla hjá kunningja Aurasálarinnar um helgina. Eins og venjulega var úr nógu félagslífi að velja. Bankarnir buðu allir í partí og kvöldmat, nokkur stórfyrirtæki voru með veislur og svo var vini Aurasálarinnar vitaskuld boðið á leiki hjá íslenska handboltalandsliðinu, West Ham, Chelsea og Barcelona.

Vinur Aurasálarinnar er mjög ánægður með þjónustu bankanna og þá sérstaklega félagsþjónustu þeirra. Þeir hafa raunar séð honum algjörlega fyrir félagslífi síðustu árin, eða alveg síðan hann hætti að borga yfirdrátt og byrjaði að innheimta vexti af innlánum sínum, fékk Platínumkort og byrjaði að sýsla með verðbréf.

En það eru ekki bara bankarnir sem bjóða upp á félagslíf því auðmennirnir eru líka duglegir við að bjóða hver öðrum í veglegar veislur, gjarnan fyrir milligöngu almenningshlutafélaga sem þeir eru í forsvari fyrir.

Nú síðast var vini Aurasálarinnar boðið í afmæli hjá framsóknarmanni. Sú var tíðin að framsóknarmenn létu sér nægja að bjóða upp á nokkrar brennivínsflöskur á ráðherraverði og fengu Geirmund Valtýsson til að taka nokkra slagara. En það er liðin tíð. Nú getur hin nýja kynslóð framsóknarmanna boðið mönnum upp á ógleymanlegar veislur.

Einn auðmaður bauð um daginn upp á emúaegg í forrétt, kengúrukjöt í aðalrétt (kengúrurnar voru fluttar lifandi til landsins með einkaþotu auðmannsins) og ekvadórskt eðalsúkkulaði í eftirrétt, borið fram á bráðnu gullbeði. Annar, ekki minni auðmaður, bauð í einni veislu upp á smjörsteikta fálkavængi í forrétt, kryddlegin ljónshjörtu í aðalrétt og Antarktíku-vanilluís í eftirrétt, en ísinn var kældur með sérinnfluttri ísbreiðu úr Weddelhafi.

Auðmaðurinn sem vinur Aurasálarinnar fór í afmæli til um helgina var ákaflega rausnalegur á afmælisdaginn. Hann gaf milljarð til góðgerðarmála – og meira að segja Aurasálin á erfitt með að pirrast út í það.

Sá hinn sami sannaði hins vegar að allur heimsins peningur getur ekki keypt góðan smekk á tónlist.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×