Viðskipti innlent

Heill ykkur meistarar

Hverjir eru þeir sem með blóði, svita og tárum gera manni eins og mér kleift að vakna seint á morgnana og liggja þess á milli með fartölvuna á maganum uppi í sófa? Það eru blessaðir bankastjórarnir.

Ég er svo barmafullur af þakklæti eftir uppgjörin að mér er næstum sama hvernig handboltalandsliðinu muni ganga. Allir eru bankarnir að skila uppgjörum sem eru svo traust að ég hef engar áhyggur af eigin taugakerfi næstu misserin. Ég er reyndar með býsna sterkt taugakerfi, en mér sýnist grunnurinn í uppgjörunum þannig að taugasjúklingar geta vel við unað.

Lansinn hefur gert brilljant hluti á innlánahliðinni í London. Ég vona bara að viðskiptavinirnir séu ekki fólk eins og ég. Ég set stundum mikla peninga í banka, en tek þá hratt út ef ég sé önnur tækifæri. Ég hef ekki lagt inn hjá Lansanum í Bretlandi, sé nóg af öðrum tækifærum, ef einhverjum kynni að finnast það merki þess að eigendur sparifjár í Lansanum í London hugsi til lengri tíma en ég.

Ég segi eins og Groucho Marx. „Ég get ómögulega þegið að vera meðlimur í klúbbi sem vill hafa mig sem meðlim.“

Uppgjörin segja mér hins vegar að maður getur verið rólegur með stöður í bönkunum, jafnvel þótt þeir eigi eitthvað eftir að hossast á markaðnum á árinu. Svoleiðis hoss er bara hollt fyrir meltinguna. Þangað til sef ég út og beini morgunbæninni til bankastjóranna: Heill ykkur meistarar!

Spákaupmaðurinn á horninu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×