Viðskipti innlent

Peningaskápurinn ...

Íslendingar með yfirhöndinaÞað eru fleiri sjóðir en íslensku lífeyrissjóðirnir sem vaxa hratt. Norski ríkislífeyrissjóðurinn, sem áður kallaðist norski olíusjóðurinn, skilaði 7,9 prósenta ávöxtun í fyrra samanborið við 11,1 prósents hækkun árið 2005. Samt sem áður var þetta öllu hærri ávöxtun en arðsemismarkmið sjóðsstjórnenda fyrir árið hljóðuðu upp á. Sjóðurinn óx um 4.200 milljarða króna í fyrra og námu heildareignir hans 19.300 milljörðum króna. Í fréttum norskra fjölmiðla kemur fram að ef eignum sjóðsins væri deilt út á hvert norskt mannsbarn fengi hver og einn 4,1 milljón króna, það er meðaltalsárslaun. Ef eignum íslensku sjóðanna væri einnig deilt út fengi hver Íslendingur 4,8 milljónir króna í sinn hlut. Svo skal böl bæta...Svíar geta ekki státað af neinum olíusjóði, enda þótt á mælikvarða heimsins hafi þeir það nokkuð gott. Á þeim bæ hafa menn ekki farið varhluta af lækkunum á mörkuðum og féll sænski markaðurinn um 3,9 prósent á þriðjudag. Til þess að gera þeim sem áhyggjur hafa af þessari lækkun lífið léttara er á netútgáfu Dagens Industri grein um Eystrasaltsmarkaði. „Lækkun í kauphöllinni í Stokkhólmi er ekkert samanborið við þróunina á mörkuðum í Eystrasaltsríkjunum. Síðasta mánuð hefur markaðurinn í Tallinn lækkað um þrettán prósent, Vilnius er niður 4 prósent og Riga niður 2,4 prósent," segir í inngangi greinarinnar. Þetta er auðvitað huggun sænskum harmi gegn.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×