Skoðun

Niðurgreiðslur á raforkuverði

Jón Sigurðsson skrifar
Fyrir ber að frásagnir fjölmiðla snarskekkja upplýsingar um það efni sem greina átti frá. Fyrir nokkrum dögum var því lýst á ársfundi Orkustofnunar á Akureyri að álitamál sé hve miklar niðurgreiðslur eigi að vera á raforkuverði í dreifbýli andspænis möguleikum til þess að auka orkusparnað með umbótum á húsnæði.

Ríkisútvarpið skýrði frá þessu með þeim hætti að allmargir skildu sem svo að sú stefna hafi verið tekin að draga mjög úr eða jafnvel fella niður allar niðurgreiðslur á raforkuverði í dreifbýlinu.

Þetta er fjarri öllu lagi. Á þessu ári verður varið tæpum 1.100 milljónum króna til niðurgreiðslna og tengdra verkefna. Á síðasta ári var tæpum milljarði króna varið í sama skyni. Auk niðurgreiðslna er meðal annars um að ræða framlög til stofnkostnaðar hitaveitna, framlög til orkusparnaðar og húsaviðgerða og fleira.

Mikið hefur verið rætt um að orkukostnaður í dreifbýlinu hafi hækkað verulega síðustu tvö til þrjú ár, eftir að nýskipan raforkumála var komið á. Yfirlit frá Rarik bendir ekki til þess að þetta eigi sér stoð í veruleikanum. Miklu fleiri njóta sambærilegs verðs eða 5-15 % lækkunar í raunverði á tímanum frá 2004 heldur en þeir sem hafa þurft að taka á sig hækkanir. Þær hækkanir sem þó hafa orðið eru hjá flestum innan við 15 % á þessum tíma.

Greining á ástæðum verðhækkana á raforku í dreifbýli á þessum sama tíma leiðir ekki til þess að sömu ástæður finnist hjá öllum eða flestum þeim sem hafa orðið fyrir hækkunum. Svo virðist sem einkum sé um atviksbundnar hækkanir að ræða. Í þessu efni ber að hafa í huga að það getur skipt máli meðal annars hvort um er að ræða vel einangruð hús eða ekki, og einnig ber að hafa í huga að niðurgreiðslur eiga aðeins við um íbúðarhúsnæði.

Nauðsynlegt er að vanda greiningu slíkra ástæðna og velja af kostngæfni þau úrræði sem koma til greina í hverju atviki. En sú stefna ríkisstjórnarinnar liggur alveg fyrir að mæta þörfum fólksins í dreifbýlinu með niðurgreiðslum og aðstoð við hitaveitur og einnig við viðgerðir á húsnæði.

Höfundur er viðskipta- og iðnaðarráðherra.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×