Skoðun

Eignir í samvinnufélögum

Jón Sigurðsson skrifar
Í leiðara Fréttablaðsins mánudaginn 18. júní sl. er umfjöllun um boðaða skipulagsbreytingu Samvinnutrygginga og sagt að hún sé „afar jákvætt skref og til sóma þeim sem að því stóðu.“ Hér skal tekið undir þessa umsögn.

Það gætir misskilnings í leiðaranum um eignir í samvinnufélögum. Um það segir m.a.: “Vandræðin byrja þegar ... eignarhald er óskýrt.” Meginregla samvinnurekstrar er að stofnsjóður, sem skiptist í persónulega eignarhluti félagsmanna, stendur að baki eignum samvinnufélagsins.

Auk stofnsjóðs er ráð gert fyrir varasjóði, en íslensk lög gera ráð fyrir að hann nái fjórðungi af stærð stofnsjóðs. Það er annað óskylt atriði að takmarkanir eru á ráðstöfun eigna í stofnsjóði, varðandi sölu, veð, útborgun, erfðir o.fl.

Sérstakar ástæður ollu því að stofnsjóðir íslenskra samvinnufélaga fylgdu ekki eignaþróun áratugum saman en óskiptilegir varasjóðir urðu yfirgnæfandi. Við þetta myndaðist “fé án hirðis” í íslenskum samvinnufélögum.

Meginástæða þessa var ákvæði laga um útborgun stofnsjóðshlutar, en þau fólu í sér hættu á því að félögunum “blæddi út” við breytingar á félagsmannahópnum.

Að þessu leyti höfðu íslensk samvinnufélög engar varnir sambærilegar á við það sem hlutafélög hafa ævinlega haft, t.d. að geta samið um afborganir eða greiðslu stofnsjóðshlutar með skuldabréfi eða hlutabréfi í B-deild félagsins.

Þessi galli á íslenskum lögum var bættur með lagabreytingum 2001 svo sem sjá má í 7.mgr. 38.gr. laga um samvinnufélög. Jafnframt voru þá opnaðar leiðir til að breyta samvinnufélagi í hlutafélag, og skv. 3.mgr. 61.gr. laganna eiga menn nú kost á því að starfrækja „samvinnuhlutafélög“ með svipuðum hætti og tíðkast í samvinnustarfi í nágrannalöndunum. Í þessu samhengi má nefna að í 3.mgr. 51.gr. og í 52.gr. laga um tekjuskatt eru einnig ákvæði um færslur eigna milli samvinnufélags og hlutafélags við slit eða skipti á samvinnufélagi.

Rétt er að taka fram að Samvinnutryggingar eru ekki samvinnufélag enda þótt vísað sé til laga um samvinnufélög í samþykktum. Réttarform Samvinnutrygginga er sérstætt og mjög líkt skipulagi íslenskra sparisjóða.

Höfundur er fyrrverandi rektor Samvinnuháskólans og átti þátt í undirbúningi lagabreytinga um samvinnufélög.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×