Viðskipti innlent

Peningaskápurinn...

Vélabóndinn

Nokkuð hefur verið rætt upp á síðkastið um netþjónabú, sem bandarísku hugbúnaðar- og netfyrirtækin Microsoft, Yahoo, Google, ásamt öðrum, eru að skoða að reisa hér á landi. Á ráðstefnu Skýrslutæknifélags Íslands í vikunni um netþjónabúin komu upp vangaveltur um nafnið enda gætu bú sem þessi geymt mun meira en netþjóna eina. Nokkrum nýjum heitum var varpað fram, svo sem gagnamiðstöð og vélabú, sem vísar til þess að þeir sem reki búið séu vélabændur líkt og kollegar þeirra með kýrnar. Hjálmar Gíslason hjá Símanum, sem átti hugmyndina, sagði þetta nærtækasta dæmið í sínum huga. „Ég er úr sveit,“ sagði hann.

Nördar ráða staðarvali

Ekki liggur fyrir um hugsanlega staðsetningu netþjónabúa, ef af verður. Sol Squire, forstjóri gagnageymslufyrirtækisins Data Islandia, sem hefur skoðað möguleikann á byggingu netþjónabús, sagði á ráðstefnunni hægt að reisa þau hvar sem er. En tvö atriði skipti þó höfuðmáli: „Þetta fer allt eftir nördunum. Í fyrsta lagi verða nördar að geta ekið til netþjónabúanna en í öðru lagi verður að vera stutt á stað þar sem hægt er að kaupa pizzur og Pepsi Max,“ sagði hann og benti á að væri hlúð að þörfum nördanna væri fátt sem stæði í vegi fyrir öruggum rekstri netþjónabúa hér á landi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×