Viðskipti innlent

Vonbrigði

Nick Leeson.
Nick Leeson.

Nick Leeson hélt erindi á morgunverðarfundi á vegum Icebank og Háskólans í Reykjavík í gærmorgun. Leeson er þekktur fyrir það eitt að vera verðbréfamiðlarinn fyrrverandi sem setti Baringsbanka, viðskiptabanka Englandsdrottningar, á hausinn með harla vafasömum gjaldeyrisviðskiptum árið 1995. Leeson var eðlilega fullur eftirsjár enda gjaldþrotið eitt það stærsta í bankaheiminum.

Réttvísin dæmdi Leeson til sex ára fangelsisvistar vegna málsins. Hann skrifaði bók um málið innan fangelsisveggja og var hún kvikmynduð með skoska hjartaknúsarann Ewan McGregor í hlutverki Leeson árið 1999. Nick sagði margar konur vafalítið verða fyrir vonbrigðum á fundinum því hann væri fjarri því að vera jafn mikill sjarmör og McGregor.

Konan spilar í lottóinu

Leeson sat inni í fjögur og hálft ár af sex vegna brotanna. Þar á ofan hlaut hann sekt upp á milljónir punda. Leeson hefur í sig og á sem framkvæmdastjóri írska knattspyrnufélagsins Galway United og með því að ferðast um heiminn og flytja erindi um sögu sína innan bankaheimsins, ekki síst hjá Baringsbanka.

Um forvarnarspjall er að ræða þar sem hann talar um hætturnar sem bankar í miklum vexti standa frammi fyrir og þær aðgerðir sem grípa þarf til svo gjaldþrotasagan endurtaki sig ekki. Leeson sagðist mega eiga bankabók og lifa sem eðlilegustu lífi í kjölfar gjaldþrotsins. Hann stundar sömuleiðis verðbréfaviðskipti, en í mjög litlum mæli. Ekki stefnir hins vegar í að hann geti nokkru sinni greitt skuldina. „En konan mín spilar í lottóinu," sagði Nick Leeson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×