Viðskipti innlent

FL spáð miklu tapi á þriðja fjórðungi

Greiningardeildir bankanna spá FL Group tapi upp á 26 til 29,6 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi. Félagið skilar uppgjöri sínu í byrjun nóvember, eða í 44. viku.

Mikil lækkun varð á eignasafni FL Group á þriðja ársfjórðungi. Mest varð lækkunin á bréfum AMR og Commerzbank, stærstu erlendu eignum félagsins. Í afkomuspá Hálf fimm frétta Kaupþings segir að nokkur óvissa sé í spánni þar sem takmarkaðar upplýsingar liggi fyrir um hluta af eignarsafni FL Group, fjármögnun félagsins og hvort það muni uppfæra óskráðar eignir sínar.

Í afkomuspá greiningardeildar Glitnis var markgengi FL Group til sex mánaða lækkað úr 33 krónum í 26,5. Kaupþing heldur sínu sem fyrr í 27 krónum á hlut. Greiningardeild Landsbankans setur markgengi til tólf mánaða á 27,5 krónur. Allar ráðleggja greiningardeildirnar fjárfestum að halda bréfum sínum í félaginu.

Við lokun markaða í gær stóð gengi FL Group í 26,35 krónum á hlut. - hhs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×