Viðskipti erlent

Verð á hráolíu undir 59 dölum

Bensínstöð í Kína síðastliðið sumar.
Bensínstöð í Kína síðastliðið sumar. Mynd/AFP

Heimsmarkaðsverð á hráolíu lækkaði um 4 prósent á helstu fjármálamörkuðum í gær og fór í rúma 58 dali á tunnu eftir að orkumálaráðuneyti Bandaríkjanna greindi frá því að olíubirgðir landsins hefðu aukist á milli vikna.

Verð á hráolíu lækkaði um 2,47 dali í Bandaríkjunum og fór í 58,58 dali á tunnu en Norðursjávarolía lækkaði um 2,28 dali og fór í 58,16 dali á tunnu.

Hráolíuverðið hefur ekki verið lægra síðan í nóvember á síðasta ári en til samanburðar stóð olíuverðið vestanhafs í 61,05 dölum á föstudag í síðustu viku, síðasta viðskiptadegi liðins árs. Í gær var hins vegar fyrsti viðskiptadagur ársins vestra en markaðir voru lokaðir á þriðjudag vegna útfarar Geralds Fords, fyrrum forseta Bandaríkjanna.

Þá er hráolíuverðið nú einungis einu senti hærra á tunnu en það var við árslok 2005 og talsvert undir sögulega hámarksverðinu sem verðið fór í um miðjan júlí en þá rauk það í 78 dali á tunnu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×