Þýski landsliðsframherjinn Miroslav Klose segir aðeins fimm félög koma til greina fyrir sig ef hann ákveði að yfirgefa herbúðir Werder Bremen í sumar eins og flestir reikna með. Klose hefur verið orðaður við fjölda stórliða eftir að ljóst varð að hann ætlaði ekki að framlengja við Bremen.
"Ég vil ná að klára þetta mál frá eins fljótt og hægt er, en ég er ekki tilbúinn að skipta um félag strax. Ef ég fer frá Bremen, kemur aðeins til greina að spila á Spáni, Englandi eða Ítalíu," sagði Klose þar sem hann er nú staddur í æfingabúðum með félaginu í Tyrklandi.
Klose er 28 ára gamall og hefur skorað 10 mörk í 15 deildarleikjum með Bremen og varð markakóngur á HM í sumar.