Fótbolti

Inter setti met á Ítalíu

Brasilíski sóknarmaðurinn Adriano er óðum að finna sitt gamla form og hann var á skotskónum í gær.
Brasilíski sóknarmaðurinn Adriano er óðum að finna sitt gamla form og hann var á skotskónum í gær. MYND/AFP
Inter Milan setti í gærkvöld met í ítölsku A-deildinni þegar liðið vann sinn 12. leik í röð. Í gær var það Torino sem lá í valnum, 3-1, en Adriano, Zlatan Ibrahimovich og Marco Materazzi skoruðu mörk Inter. Þjálfarinn Roberto Mancini vill ekki gera of mikið úr metinu.

 

"Þetta met breytir engu og leikmennirnir hafa ekki einu sinni verið að tala um það. Fyrir mér þýða 12 sigrar að við höfum færst nær ætlunarverki okkar - sem er að verða ítalskir meistarar í vor. Ef við vinnum ekki titilinn hafa þessir tólf sigurleikir enga þýðingu," sagði Mancini.

 

Markaskorarinn Ibrahimovich, maður leiksins í gær, tók undir orð þjálfara síns. "Við höfum ekkert pælt í þessu meti. Við spilum alltaf til sigurs og það vill svo til að við höfum unnið svona marga leiki í röð. En ekkert lið er fullkomið og við getum enn bætt við okkur," sagði sá sænski.

 

Með 12. sigurleiknum bætti Inter met sem Roma setti á síðustu leiktíð, en þá vann liðið 11 leiki í röð. Inter er nú með 10 stiga forystu á Roma á toppi deildarinnar, en Roma getur minnkað forskotið niður í sjö stig með sigri á Messina síðar í dag.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×