Carlo Ancelotti, þjálfari AC Milan á Ítalíu, segir að nýjasti liðsmaður félagsins, brasilíski framherjinn Ronaldo, sé alls ekki feitur heldur aðeins vel í holdum. Ancelotti segir Ronaldo einungis skorta leikæfingu og að hann þurfi ekki að grennast.
“Ronaldo hefur sterkbyggðan líkama, en hann er ekki feitur. Hann á ekki við nein líkamleg vandamál að stríða,” segir Ancelotti.
“Hann getur ekki verið sami leikmaður og þegar hann var tvítugur. Hins vegar skulum við ekki gleyma því að á síðustu fimm árum hefur enginn leikmaður í heiminum skorað eins mikið af mörkum og Ronaldo. Hann er mjög ljúfur og einbeittur og er staðráðinn í að standa sig vel á Ítalíu,” bætti Ancelotti við.