Erlent

Vilja aflétta banni af Palestínumönnum

MYND/AP

Rússar vilja að hömlum á efnahagsaðstoð vesturlanda við Palestínumenn verði aflétt, þegar Miðausturlanda kvartettinn svonefndi kemur saman til fundar annan febrúar næstkomandi. Bæði Bandaríkin og Evrópusambandið hættu allri efnahagsaðstoð þegar Hamas samtökin komust til valda í palestinsku heimastjórninni á síðasta ári.

Aðstoðar utanríkisráðherra Rússlands sagði í samtali við Interfax fréttastofuna að Rússar hefðu ávallt verið á móti því að hætta efnahagsaðstoð og að þeir vonuðust til þess að hlustað verði á skoðanir þeirra á fundinum. Bannið hefur leikið heimastjórn Palestínumanna grátt, og þeir hafa til dæmis ekki getað greitt opinberum starfsmönnum laun svo mánuðum skiptir.

Undanfarnar vikur hefur verið farið í kring um bannið með því að fé hefur verið veitt beint til Mahmúds Abbas, forseta Palestínumanna, en ríkisstjórn Hamas hefur verið sniðgengin. Í Miðausturlanda kvertettinum eru Bandaríkin, Rússland, Evrópusambandið og Sameinuðu þjóðirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×