Fótbolti

Mörkin hjá Hamburg of lítil

NordicPhotos/GettyImages

Allt hefur gengið á afturfótunum hjá liði Hamburg í þýsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í vetur og hefur liðið skorað fæst mörk allra í deildinni. Blaðamaður Hamburger Abendblatt hefur fundið lausnina á þessu og segir mörkin á Hamburg Arena einfaldlega vera of lítil.

Blaðið lét gera vísindalega athugun á mörkunum á Hamburg Arena og við mælingu kom í ljós að aðeins 239 cm voru upp í markslánna í stað þeirra 244 cm sem reglur segja til um.

"Ef þessar mælingar reynast réttar, verðum við að ganga úr skugga um að þessu verði kippt í lag hið snarasta fyrir leik okkar við Dortmund og það er þá sannarlega gott að enginn skaut í slánna hjá okkur í leiknum við Cottbus á dögunum," sagði talsmaður Hamburg.

Þessi uppákoma verður líklega að teljast nokkuð í takt við gengi Hamburg á leiktíðinni sem hóf hana með vonir um að verða Þýskalandsmeistari, en er nú á botninum og rak á dögunum þjálfarann Thomas Doll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×