Fótbolti

Ancelotti ánægður með Ronaldo

Carlo Ancelotti gefur Ronaldo góð ráð áður en sá síðarnefndi kom inn á í sínum fyrsta leik fyrir AC Milan í dag.
Carlo Ancelotti gefur Ronaldo góð ráð áður en sá síðarnefndi kom inn á í sínum fyrsta leik fyrir AC Milan í dag. MYND/AFP

Carlo Ancelotti, þjálfari AC Milan, var mjög ánægður með frammistöðu brasilíska framherjans Ronaldo sem lék sinn fyrsta leik fyrir sitt nýja lið í dag eftir að hafa komið frá Real Madrid í síðasta mánuði. Ronaldo þótti frískur þann tæpa hálftíma sem hann spilaði og gladdi auga þjálfara síns.

"Hann spilaði í hálftíma, skapaði sér þrjú fín færi og var alltaf hættulegur. Hann þarf vissulega að bæta sitt líkamlega form en ég hef trú á að hann eigi eftir að reynast okkur mjög vel," sagði Ancelotti eftir leikinn.

Ronaldo fékk mjög góðar viðtökur frá stuðningsmönnum Milan þegar hann kom inn á, þrátt fyrir að hann hafi leikið með erkifjendunum í Inter frá árunum 1997 til 2002.

"Hann hefur ótrúlega hæfileika. Hann er fljótur, kraftmikill og gríðarlega teknískur og fyrir mér er hann sami leikmaður og hann hefur alltaf verið. Hann er bara ekki í formi til að sýna það í 90 mínútur," bætti Ancelotti við.

Ronaldo sjálfur var ánægður með eigin frammistöðu. "Mér fannst þetta ganga vel. Ég á ennþá mikið ólært og á eftir að kynnast nýju liðsfélögum mínum betur. Fyrr en síðar mun ég skora og þá mun leiðin aðeins liggja upp á við," sagði Ronaldo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×