Erlent

Evrópuþingmenn rífast um fangaflug

Bandarísk flugvél á Reykjavíkurflugvelli. Grunur er um að hún hafi verið á vegum CIA.
Bandarísk flugvél á Reykjavíkurflugvelli. Grunur er um að hún hafi verið á vegum CIA. MYND/Atli Már Gylfason

Evrópskir þingmenn tókust á um það, í dag, hvort þeir hefðu nægar sannanir til þess að saka ríkisstjórnir landa sinna um að hafa átt samstarf við bandarísku leyniþjónustuna CIA um fangaflug til aðildarríkja Evrópusambandsins. Leyniþjónustan er sökuð um að hafa geymt meinta hryðjuverkamenn í leynifangelsum í Evrópu, og flogið með þá til landa þar sem þeir voru pyntaðir.

Í skýrslu sérstakrar rannsóknarnefndar eru nokkur aðildarríki Evrópusambandsins sökuð um að hafa vitað af þessum fangelsum og flutningum. Vinstri sinnaðir þingmenn á Evrópuþinginu í Strasbourg telja þetta allt saman vera fullsannað.

Íhaldssamir þingmenn segja hinsvegar að skýrslan einkennist af fordómum gegn Bandaríkjunum og að í henni séu engin óyggjandi sönnunargögn.

Grunur leikur á að einhverjar af flugvélum CIA hafi haft viðdvöl á Íslandi, þótt engar sannanir séu fyrir því að fangar hafi verið um borð í vélunum sem hér lentu.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×