Erlent

Ekkert bendir til þess að Díana hafi verið myrt

Díana prinsessa.
Díana prinsessa.

Breskur dómari sem hefur verið falið að rannsaka lát Díönu prinsessu segist vera treg til þess að fresta réttarhöldunum, enda hafi hún ekki séð minnsta vott af sönnunargögnum um að prinsessan hafi verið myrt. Samvkæmt breskum lögum er skylt að dómari úrskurði um dánarorsök ef lát ber ekki að með eðlilegum hætti. Undir það fellur bílslysið sem Díana og vinur hennar Dodi al Fayed fórust í.

Faðir Dodis, egypski auðkýfingurinn Mohammed al Fayed, heldur því fram að breska leyniþjónustan hafi myrt þau, að undirlagi bresku konungsfjölskyldunnar. Þriggja ára breskri lögreglurannsókn lauk á síðasta ári og var niðurstaða hennar að bílslysið hafi verið slys og ekkert annað. Niðurstaða franskrar rannsóknar var sú sama.

Mohammed al Fayed þótt vinna mikinn sigur í síðustu viku þegar úrskurðað var að kviðdómur skyldi fjalla um málið, en ekki eingöngu dómari, eins og venjan er. Í dag fór lögmaður al Fayeds fram á það við Elísabet Butler-Sloss, dómara, að fresta réttarhöldunum í sex mánuði, meðan hann færi yfir skjöl í málinu, en ætlunin er að þau hefjist í maí.

Butler-Sloss kvaðst mjög treg til þess að bíða enn í sex mánuði, af tillitssemi við syni Díönu. Hún sagði ennfremur að hún hefði ekki séð minnsta vott af sönnunargögnum fyrir kenningum al Fayeds. Búist er við að lögfræðingur egyptans krefjist þess að Karl prins og faðir hans hertoginn af Edinborg verði kallaðir sem vitni. Víst má telja að lögfræðingar konungsfjölskyldunnar verði því mjög andvígir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×