Erlent

Kínverjar auka umsvif sín í geimnum

Kínverjar ætla sér að skjóta sinni fyrstu tunglkönnunarflaug á loft seinna á þessu ári. Huang Chunping, háttsettur starfsmaður kínversku geimferðastofnunarinnar, staðfesti þetta í dag. „Við teljum það heldur ekki óraunhæft að koma manni á tunglið á innan við 15 árum.“ sagði hann enn frekar.

Huang sagði einnig að Kínverjar ætluðu sér að senda þriðja mannaða geimfar sitt út í geim á næsta ári og að það yrðu alls þrír geimfarar um borð í því. Þeir munu reyna við fyrstu geimgöngu kínverskra geimfara. Geimskotið átti að fara fram síðar á þessu ári en því var seinkað þar sem enn er verið að vinna við geimbúningana sem geimfararnir eiga að vera í þegar þeir fara í geimgönguna.

Huang sagði þó að geimskotið yrði ekki sett á á sama tíma og ólympíuleikarnir verða í Peking en þeir hefjast í ágúst árið 2008.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×