Erlent

Konur krefjast jafnréttis á alþjóðlegum baráttudegi kvenna

Frá útifundi kvenna í Súdan í dag. Hann var haldinn í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna.
Frá útifundi kvenna í Súdan í dag. Hann var haldinn í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna. MYND/AFP
Fólk um allan heim hefur í dag fagnað baráttudegi kvenna og heitið því að bæta stöðu þeirra til muna. Angela Merkel, þýski kanslarinn og fyrsta konan í meira en 20 ár til þess að stýra leiðtogafundi Evrópusambandsins, krafðist í dag jafnréttis kynjanna.

"Eitthvað verður að breytast" sagði Merkel við upphaf leiðtogafundarins í Brussel í dag. Hún bætti því við að konur væru ekki nógu margar í háum stöðum í stjórnmálum, vísindum og hagfræði.

Í Kína hitti Hu Jintao, forseti Kína, kvenkyns þingmenn í dag. "Ég vil nýta þetta tækifæri til þess að senda ykkur kveðju mína og vona að ykkur gangi vel á ferli ykkar og að líf ykkar verði hamingjusamt." sagði hann á flokksþingi kommúnistaflokks landsins í dag.

Á Indlandi hefur leigabílafyrirtæki í Mumbai sett á fót leigubílaþjónustu sem er eingöngu með kvenkynsleigubílstjóra. Er það til þess að konum finnist þær vera öruggari en ella í leigubílum.

Verð á blómum hækkaði upp úr öllu valdi í Víetnam í dag þar sem allir karlmenn færðu konum sínum blóm í tilefni dagsins. Baráttumenn fyrir réttindum kvenna stóðu fyrir kröfugöngum í Islamabad, höfuðborg Pakistans.

Stjórnvöld í Íran leystu í dag úr haldi margar af þeim konum sem voru handteknar á sunnudaginn var fyrir að mótmæla slælegri stöðu kvenna í landinu. Þeim var þó skipað að halda sig frá mótmælum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×